Sveitin Mín

Píanósvítan Sveitin Mín samanstendur af 40 verkum, sem lýsa í tónum senum úr Mývatnssveit.

Verkin voru samin yfir um 30 ára skeið, og þó ekki séu til nákvæm ártöl á hvert verk, þá er vitað að fyrstu 19 verkin höfðu verið samin, og síðan tekin upp, árið 1997. Árið 2004 voru verkin orðin 24, og að lokum urðu þau 40 talsins.

Efnisyfirlit

1. Fyrsta sóleyjan

Á hverju ári var það mikill fögnuður að sjá fyrstu sóleyjuna heima við prestshúsið á Skútustöðum, og lýsi ég þeim fögnuði í þessu lagi, sem varð upphafið að því, að ég samdi fjölda tónverka um Mývatnssveit og nágrenni.

Tileinkað Þórdísi, dóttur minni.

2. Mánaskin

Þetta lag á að lýsa hughrifum mínum á mánabjörtu vetrarkvöldi. Þetta er einasta lagið í þessari svítu, sem er mótað af vetrarstemmingu.

Tileinkað Aldísi, systir minni.

3. Mikley

Þetta er eitt af fyrstu lögunum í þessari svítu og er mótað eftir ferð út í stærstu eyju Mývatns, Mikley, sem tilheyrir Skútustöðum.

Tileinkað Friðrik Degi, syni mínum.

4. Dimmuborgir

Nokkurs konar rapsódía, sem dregur upp myndir af hinu fagra og ævintýranlega landslagi Dimmuborga.

Tileinkað vini mínum, sr. Sigurði Hauk.

5. Höfði

Lýsir hughrifum mínum á þessum stórbrotna og unaðslega stað.

Tileinkað Friðrik Degi.

6. Sumar við Mývatn

Endirminning um fagran sumardag í þessari unaðslegu sveit.

Tileinkað móður minni.

7. Álfhildur

Það best, sem sveitin veitti mér, var kær lífsförunautur, og er þetta verk samið til eiginkonu minnar, Álfhildar Sigurðardóttur.

8. Bláfjall

Að mínu mati fegursta fjall heimsins. Ég hef lýst því ótal sinnum með vatnslitum, og hér lýsi ég því líka í tónum.

Tileinkað Erni Friðrikssyni, sonarsyni mínum og nafna.

9. Laxá

Laxá er ein fegursta á landsins, með hólmum og fallega grónum bökkum, og hér hef ég reynt að lýsa mývetnskum hluta hennar með tónum, sesm tákna umhverfi hennar og straum hennar, voldugan, glaðan og léttan.

Tileinkað Birnu, systur minni.

10. Fálkaborg

Fálkaborg er unaðsleg klettaborg inni á einhverju fegursta túni heims. Útsýnið í allar áttir er stórkostlegt. Tónverkið lýsir kyrrlátri hrifningu minni þarna á fögrum sumardegi.

Tileinkað Arnfríði, dóttur minni.

11. Sumar við Suðurá

Land Mývatnssveitar nær að Suðurá og jafnvel lengra. Ég hugsa mér að ég sé staddur á grasi grónum bala við Suðurá. Fögur lítil hálendisblóm skína. Það heyrist í hávellu. Lóan er áberandi. Og á næsta leiti er dimmt Ódáðahraunið, sem minnir á fornar sagnir af draugum og útilegumönnum. Og áin sjálf streymir sífellt fram hjá og mótar verkið, sem einkennist mjög af sterkum andstæðum.

Tileinkað Hildi Ásvaldsdóttur, húsfreyju á Gautlöndum.

12. Austurfjöll

Ég hugsa mér, að verkið byrji á Námafjalli. Eftir nokkra inngangstóna kemur lítið stef, sem táknar sólaruppkomuna. Þá hefst stef, sem táknar hinn víða og fagra fjallahring. Síðan kemur langt ferðalag austur og suður. Landslagið er lengst af svipað en tekur þó nokkrum breytinum. Svo kemur stef, sem táknar uppsprettur og læki svæðisins. Og síðan hefst vatnastef. Það er Jökulsá, sem fellur fram með miklum þunga, sem einkennist í tónverkinu ekki síst af hröðum tónum vinstri handarinnar. Síðan er fjallastefið endurtekið mun voldugra en áður. Það táknar Herðubreið. Og svo lýkur verkinu.

Tileinkað föður mínum.

13. Markhraun

Í Markhrauni eru margir fagrir staðir. Þar hef ég tekið margar fallegar ljósmyndir og málað vatnslitamyndir. Það var kominn tími til þess að mála það með tónum.

Tileinkað vini mínum, Ólafi Skúlasyni biskupi.

14. Hólmarnir

Sunnan við prestshúsið er allstórt svæði, sem nefnist Hólmarnir. Bak við það eru hin fögru fjöll, Bláfjall og Sellandafjall, og í fjarska Dyngjufjöll. Og á björtum dögum má skýrt sjá Bárðabungu. Þessa útsýnis naut ég mjög öll árin mín á Skútustöðum.

Tileinkað Áslaugu, dóttur minni.

15. Boðatjörn

Milli prestshússins og Hólmanna er fögur tjörn, Boðatjörn, sem teygir sig yfir svæðið allt frá kirkjunni og lang austur fyrir Dagmálahól. Um hana gildir margt af því sem sagt var um Hólmana.

Tileinkað Björgu, systir minni.

16. Framengjar

Sunnan við Hólmana taka við svonefndar Framengjar. Er það mikið svæði og grösugt, sem hér áður fyrr var mikilvægt fyrir afkomu margra bænda í sveitinni, sem fengu að koma og heyja þar. Þarna vann ég oft á sumrin við heyskap og hreifst af náttúrufegurðinni. Allt var svo fallega gróið. Fuglarnir sungu, og hrossagaukurinn setur mjög svip á tónverkið. Allt í kring er hinn undursamlegi fjallahringur, sem heillaði mig mjög, og mótar það mjög verkið.

Tileinkað vini mínum, séra Þóri Stephensen.

17. Rönd

Þetta er einasta verkið mitt, sem er í þremur þáttum. Hinn fyrsti hefst, er ég kem að Sandvatni að austan. Lagrænt stef á að tákna hrifningu mína, þegar hið stórbrotna útsýni opnast yfir vatnið, Vindbelg og Randarsvæðið. Síðan tekur við lifandi stef, sem táknar sjálft vatnið með fjallið í baksýn. Annar þátturinn táknar bænhúsið á Rönd, litla torfkirkju, sem er heillandi guðshús í óviðjafnanlegu umhverfi. Þriðju þátturinn dásamar enn allt þetta svæði og endar á fyrsta stefinu, sem er nú orðið að voldugri lofgjörð til skapara tilverunnar.

Tileinkað mági mínum, Ingvari Þórarinssyni.

18. Haganes

Þetta er verk, sem lýsir fegurð Haganeslandsins. Það er lýriskt og tiltölulega lítið um sterka tóna, en það endar þó með aukni lífi og krafti – og finnst mér ég þá vera kominn út á Hamarinn, sem er hálendari kafli yst úti við Mývatn.

Tileinkað Friðrik Degi.

19. Grænilækur

Verkið hefst með léttum dillandi tónum, sem tákna uppsprettur og læki svæðisins. Svo kemur lagrænt stef, sem táknar Grænavatn. Síðan er þetta stef endurtekið með nokkurri hreyfingu. Það er hinn svonefndi breiðilækur, sem minni á stöðuvatn, en þó er töluverð hreyfing í honum. Svo þrengist lækurinn og straumur eykst, og er því lýst með nokkrum stefjum. Allt í kring er svo hið heillandi útsýni í allar áttir, sem hrífur hugann í hæðir, og má mjög vel finna það af tónverkinu. Grænilækur rennur svo hægt út í Mývatn, og verkið endar á svipuðum tónum eins og það byrjaði. Sumir hafa sagt, að þetta tónverk ætti fremur við um hina miklu Laxá. En bæði er það, að þetta verk er samið mörgum árum síðan en hið fyrra, og svo er það umhverfið, sem mest mótar þetta verk – og annað eins útsýni sést eflaust frá fáum ám í heimi.

Tileinkað vinum mínum Ólafi Hauki Árnasyni og Björgu Hansen.


Þessi 19 tónverk, sem ég kalla einu nafni „Sveitin mín“, tók Ríkisútvarpið upp haustið 1997. Var það mest að þakka Björgu Árnadóttur, forstjórafrú í Kísiliðjunni, sem hafði mikið samband við útvarpið og fylgdist með upptökunni. Reyndar er þessi upptaka langt frá því að vera gallalaus. Ég var orðinn sjötugur, þegar ég spilaði þetta, og bilaður í báðum öxlum. Auk þess var ég búinn að vera nærri mánuð í Reykjavík án þess að snerta á hljóðfæri, og spilaði svo á tveimur dagpörtum rúmlega tveggja klukkustunda prógramm – eftir minni -. Það gat ekki hjá farið að ég slægi á rangar nótur, og sumstaðar ber á nokkrum taugaóstyrk. En þrátt fyrir allt tel ég það mikils virði að hafa þessa upptöku. Síðan hefi ég samið allmörg verk í þessari svítu. Þau eru misstór og ólík eins og fyrri verkin, en eru þó öll nokkuð greinilega í „mínum stíl“.


20. Vor á Skútustöðum

Allmikið verk, lagrænt og lýriskt.

Tileinkað Sigurði Ágústi, syni mínum.

21. Bátsferð á Mývatni

Lítið lag með góðum endurminningum.

Tileinkað Sigurði Ágústi.

22. Hinsta ferðin - Útfarardagur á Skútustöðum

Dauðinn kallar með miklum krafti. Svo kemur lýriskur milliþáttur, sem á að minna á ljúfar myndir jarðlífsins. Þessi þáttur minnir nokkuð á sónötu eftir Chopin, en allt öðruvísi er unnið úr honum, svo að þetta verður allt önnur tónlist. – Síðan kallar dauðinn aftur, voldugur og óhagganlegur. En síðustu tónarnir eru veikir og tákna það, að maðurinn taki með ró kalli dauðans.

Tileinkað Þórdísi.

23. Stakhólstjörn

Lítið verk um fagra náttúruperlu.

Tileinkað Þorláki, mági mínum.

24. Kálfaströnd

Samið samkvæmt beiðni ungrar þýskrar vinkonu minnar, Katrin Heim, sem bað mig að semja lag, sem hún gæti frumflutt í tónlistarskólanum í München. Hún sagði mér, að laginu hefði verið vel tekið. – Þetta verk spilaði ég oft nýsamið fyrir Ebbu Sigurðardóttur biskupsfrú, þegar þau hjónin voru hjá okkur við vísitasíu í Þingeyjarprófastsdæmi. Er sú samvera okkur minnisstæð, svo og öll vinátta okkar við þau hjónin, og tileinka ég Ebbu þetta verk.

25. Sumarnótt á Skútustöðum

Hugleiðing.

Tileinkað Álfhildi, eiginkonu minni.

26. Þórólfshvoll

Á fögrum stað á lítilli hæð við Kráká í Baldursheimslandi er sumarbústaður vina minna, Grétu Ragnarsdóttur og Sigurðar Þórólfssonar. Þar hefi ég átt margar ánægjulegar stundir, og endurminningin um fegurð staðarins leitaði mjög á min, og úr því varð lítil hugleiðing.

Tileinkað Grétu og Sigurði.

27. Stöng

Við hjónin heimsóttum eitt undursamlegt sumarkvöld vini okkar, Svölu Gísladóttur og Ásmund Kristjánsson á Stöng. Ég heillaðist af hinum fagra fjallahring, sem var baðaður í kvöldsólinni. Fegurð, kyrrð og friður heiðarinnar er svo heillandi, að allt í einu er eins og hún fari að hrópa. Verkið byrjar á lágværu, lagrænu stefi. Svo kemur annað stef, hljóðlátt en með heldur meiri hreyfingu. Síðan kemur millikafli, ljóðrænn og íhugandi, hægur, en með töluverðum styrk- og hraðabreytingum. Svo kemur fyrsta stefið aftur með mun meiri hraða og tilfinningu. Og í framhaldi af því er aðalstef millikaflans endurtekið með töluverk mikilli hreyfingu sem magnaðist mjög og stef númer tvö er endurtekið með hrópandi krafti. Að síðustu kemur þáttu, „alla marcia“ sem er fagnandi lofgjörð til hans, sem skapaði alla þessa fegurð.

Tileinkað vinum mínum, Svölu Gísladóttur og Ásmundi Kristjánssyni á Stöng.

28. Kráká

Fögur á sem streymir friðsæl gegnum suðursveitina og út í Laxá. Henni eru tengdar margar góðar endurminningar.

Tileinkað Jóni Þórissyni, svila mínum.

29. Víkurnes

Þetta er nokkuð gamalt melódískt tónverk. Ég spilaði það nýsamið í Víkurnesi, og vinur minn, Jón Árni í Víkurnesi, hafði orð á því, hvað honum þærri þetta fallegt verk. Mörgum árum seinna spilaði ég þetta aftur í Víkurnesi, og Jón Árni kom hlaupandi framan úr eldhúsi og fór að lýsa hrifningu sinni af verkinu. Fékk hann mig síðan til þess að spila það á aðventukvöldi í Reykjahlíðarkirkju. Í mínum huga hefur þetta verk síðan alltaf tengst Víkurnesi, og liggur þá beint við að kenna það við Víkurnes.

Tileinkað vinum mínum, Þorbjörgu Gísladóttur og Jóni Árna Sigfússyni.

30. Álftavogur

Lýriskur þáttur um þennan fagra vog og útsýnið, sem blasir við, þegar menn koma að Mývatni – einu fegursta vatni veraldar. Ég hugsa mér, að verkið byrji á Álftavogi. Síðan hefst langt ferðalag á báti um vatnið, sem túlkað er með ýmsum stefjum. Ferðin hefst á tiltölulega einföldu stefi með lifandi undirspili, sem táknað hreyfinguna. Þá kemur nýtt stef, sem meðal annars á að minna á svanasöng og annað fuglalíf í vatninu. Svo er stef, sem á að lýsa skini sólarinnar á spegilsléttum vatnsfletinum. Eitt lagrænt stef táknar Mikleyjarsund. Þessi stef fléttast meira og minna saman. Svo lýkur verkinu aftur á Álftavogi, og er það upphafsstefið endurtekið mjög myndarlega og með vaxandi krafti. Þetta verk tileinka ég vinum mínum, Hildi Jónsdóttur og Sigurbirni Sörenssyni á Geiteyjarströnd, en meðan við bjuggum í Mývatnssveit vorum við alltaf í nánu sambandi við þau, og þau sýndu tónsmíðum mínum mikinn áhuga og veittu mér dýræmta hvatningu.

31. Hverarönd

Fremur einfalt lítið verk. Lýriskt í eðli sínu. Landslagið er fagurt, en hverasvæðið mjög sérkennilegt. Með nokkrum millibilum eykst styrkleikur tónanna, en það á að tákna óróleika hveranna. Þetta verk hefur mjög leitað á hug minn undanfarið.

Tileinkað sonarsyni mínum, Eiríki Hákoni Friðrikssyni.



Þessi 31 verk lágu fyrir í Apríl 2009, þegar afi minn tók saman þessar lýsingar. Á árunum sem fylgdu bættust síðan 9 verk í röðina. Eru lýsingar á þeim mínar eigin.

- Valdemar Örn

32. Neslandatangi

Rólegt og melódískt lag, í klassískum stíl Arnar.

33. Reykjahlíð

Mikið og stórt verk í fjórum þáttum, enda mikið að sjá og upplifa í Rekjahlíð. Tónrænar myndir lýsa þorpinu og fallegri kirkjunni, en ekki má gleyma túristunum, sem oft standa út úr í litrænum úlpum þar sem þeir vappa áttavilltir um bæinn.

Tileinkað Friðrik Aðalsteini sonarsyni mínum

34. Kvöldbænir í Skútustaðakirkju

Rólegt lag, tilfinngamikið en þó með glöðum yfirbrag

Tileinkað séra Örnólfi Ólafssyni

35. Vagnbrekka

Létt og glaðlegt lag, fullt af hreyfingu, sem endurspegar hugsanlega dýralífið og gróðurinn í sveitinni.

36. Prestshúsið

Prestshúsið á Skútustöðum mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta fjölskyldunnar. Þar var alltaf fullt hús af fólki, og mikið um að vera. Út um stofugluggann var hugsanlega fallegasta útsýni sem ég hef nokkurn tímann séð, en þar blasa við hólmarnir, með Bláfjall og Sellandafjall í bakgrunni, en Örn málaði óteljandi málverk af þessu viðmóti í gegnum árin.

Tileinkað fjölskyldu minni

37. Vogar

Verk í þremur þáttum, með sterkum tónþemum sem þróast og breytast í gegnum verkið.

38. Gautlönd

Verk í þremur þáttum. Rólegt og tilfinningamikið.

39. Helluvað

Lag í tveimur þáttum.

40. Sveitin mig heillar

Stutt lag, talsvert öðruvísi en önnur lög úr lagahópnum, og minnir meira á eldri sönglög Arnar. Lagið er það eina af þessum 40 sem er ætlað til söngs og hefur texta.