Um höfundinn
Sr. Friðrik Hákon Örn Friðriksson fæddist 27. júlí 1927 í Kanada. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Aðasteinn Friðriksson og Gertrud Estrid Elise, fædd Nielsen, frá Kaupmannahöfn.
Örn var næstelstur en auk hans var eldri systir, Björg og tvær yngir, Aldís og Birna. Þegar Örn fæddist var faðir hans prestur í söfnuðum Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum en árið 1933 flutti fjölskyldan til Húsavíkur við Skjálfanda. Mikil tengsl voru alla tíð við Danmörku og dvaldi hann oft langdvölum þar hjá afa sínum og ömmu og kynntist þannig stórborgarmenningu þess tíma til viðbótar við uppvöxt og aldarbrag í þingeyskum smábæ. Börnin voru alin upp við að vera jafnvíg á íslensku og dönsku.
Snemma byrjaði Örn að aðstoða við ýmis verk og var einnig sendur í sveit þegar hann var 12 ára. Hann vann einnig alls konar launuð sumarstörf sem unglingur t.d. í vegavinnu, síldarverksmiðju og við virkjunarframkvæmdir. Í uppvextinum kynntust systkinin lifandi samfélagi og miklum gestagangi enda voru foreldarnir mjög virkir í fjölbreyttu mennta- og félagslífi sýslunnar. Gertrud kom frá miklu menningarheimili í Danmörku og hafði vanist klassískri menntun og menningu sem hún miðlaði áfram til barna sinna. Hún var afbragðs píanóleikari og lék undir hjá kórum og á leiksýningum á Húsavík og kenndi börnum sínum á píanó.
Sr. Friðrik lagði mikla áherslu á virðingu og viðhaldi íslenskrar menningar og bæði studdu hjónin við menntun og uppfræðslu barna sinna. Hann var hagmæltur og músíkalskur eins og kona hans og tók með sér fjölda sönglaga frá Ameríku og gerði texta við mörg þeirra. Hann stjórnaði karlakór og Gertrud var undirleikari svo börn þeirra vöndust frá upphafi fjölbreyttu tónlistarlífi á heimilinu.
Örn var alla tíð mjög virkur í félagslífi, stofnaði m.a. skátafélag með vinum sínum 12 ára og tók þátt í kórastarfi og fjölbreyttu félagslífi. Einnig stundaði hann íþróttir, svo sem skíði en hann hafði ekki áhuga á keppnisíþróttum heldur eingöngu til heilsubóta og styrkingar.
Örn lauk unglingaskóla frá Húsavík en fór síðan í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan árið 1949. Hann las stóran hluta námsins utanskóla en dúxaði þó á stúdentsprófinu. Á menntaskólaárunum kenndi hann t.d. dönsku hálfan vetur í nýstofnuðum Gagnfræðskóla Húsavíkur, auk þess sem hann kenndi þar söng og hélt úti kór. Hann var hálft ár í Danmörku á þessum tíma og fékk þá tilsögn í píánóleik en annars var hann að mestu sjálfmenntaður þó hann nyti aðstoðar frá móður sinni.
Árangur Arnar á stúdentsprófi var til þess að hann fékk skólastyrk og hélt til Danmerkur í nám í bókmenntun og tónlist. En hugurinn leitaði heim og 1951 settist hann í guðfræðideild og lauk þaðan prófi 1954. Hann sótti þá um sem prestur í Mývatnssveit og hóf þar störf um sumarið. Er fram liðu stundir varð hann svo prófastur í Þingeyjarsýslum.
Á Skútustöðum kynntist hann eiginkonu sinni, Álfhildi Sigurðardóttur. Þau bjuggu á Skútustöðum allt til 1997 þegar Örn lét af störfum eftir 43 ára starf og fluttust þau þá til Akureyrar þar sem hann bjó til dauðadags. Örn og Hilla eignuðust 5 börn og eiga fjölda afkomenda.
Örn þekkti til Mývatnssveitar áður en hann flutti þangað en hann hreifst mjög af náttúru og landslagi sveitarinnar og naut þess að taka þátt í öflugu menningar og félagslífi sveitarinnar. Hann spilaði mikið undir á tónleikum, á skemmtunum og við önnur tækifæri, stjórnaði karlakór sveitarinnar og sat í ýmsum nefndum í sýslunni og innan kirkjunnar. Örn kenndi í nokkra áratugi í Skútustaðaskóla og var lengi prófdómari í dönsku og latínu við Menntaskólann á Akureyri. Hann hafði mikið yndi af veiðiskap og hann rak sauðfjárbú með tengdaföður sínum um árabil, byggði upp hús og ræktaði tún.
Örn var alla tíð mikill safnari. Á æskuárum fór hann að safna frímerkjum en síðar einnig mynt. Hann safnaði einnig ýmsum gömlum hlutum úr sveitinni og hafði til sýnis uppi á veggjum hjá sér. En frægastur er hann sennilega fyrir myndavélasöfnunina. Hann fékk snemma mikinn áhuga á ljósmyndun og fékk þokkalega vél sem unglingur og tók margar myndir af fólki á Húsavík við daglegt líf og störf. Hann eignaðist síðan mjög góðar vélar upp úr 1960 og tók margar myndir, bæði af mannlífi og af náttúrunni. Hann gaf myndasafnið síðar á Safnahúsið á Húsavík þar sem það verður aðgengilegt almenningi. Hann fór einnig að safna myndavélum og áður en yfir lauk voru vélarnar orðnar rúmlega 400.
Örn var mjög laginn í höndunum, hafði gaman af smíðum og einnig fór hann snemma að mála. Eftir að hann flutti í sveitina varð mývetnskt landslag höfuðviðfangsefni hans. Myndir eftir hann prýða mörg heimili í sveitinni og víðar. Það var kannski ekki svo stórt stökk að færa sig frá því að mála mýventska náttúru yfir í að lofa hana í tónlist. Örn byrjaði snemma að fást við tónlist eins og áður er sagt, ólst upp við fjölbreytta músík á heimilinu, spilaði á píanó, söng í karlakór og kirkjukór auk þess sem hann stjórnaði kórum og lék undir á samkomum, jafn á námsárunum og eftir að hann varð prestur og spilaði t.d. oft sjálfur undir við athafnir ef þannig stóð á. Hann las sér alla tíð mikið til um tónlist, hlustað á fjölbreytilega klassíska tónlist og var almennt vel að sér um hana. Hann þakkaði útvarpinu alltaf mikinn tónlistarflutning, í Danmörku kynntist hann fjölbreyttri tónlist og fór þar á tónleika og í óperu sem hann átti ekki kost á hér heima.
Ungur var hann farinn að búa til lög og útsetja og þetta fékkst hann við alla tíð. Hann fékk marga texta frá föður sínum, einnig síðar frá konu sinni og syni. Hann samdi tónlist við leikritið Leirhausinn, mývetnskan farsa eftir Þorgrím Starra Björgvinsson og sá einnig um undirleikinn. Hann fór einnig að fást við að búa til píanóverk og gerði stóran flokk tónverka sem hann kallaði einu nafni ”Sveitin mín”. Þau voru innblásin af landslagi og náttúru sveitarinnar sem hann tók ástfóstri við.
Eftir að hjónin fluttu til Akureyrar hélt Örn áfram að mála og semja tónlist. Þar leið honum vel og eins áttu þau hjónin margar góðar stundir hjá börnum sínum, bæði innanlands og utan. Alltaf saknaði hann þó sveitarinnar og reyndi að komast þangað eins oft og hann gat. Þá fannst honum einnig að hann hefði ekki næg og krefjandi verkefni. En lífið var gott og þó líkaminn væri ekki of sterkur þá hélt hann fullu andlegu þreki allt fram í andlátið.